Myndefni

Alls kyns um kynferðismál

Í þessari teiknuðu stuttmynd er fjallað um ýmsar hliðar kynferðismála. Rætt er um hugtök eins og kyn, kynvitund, kynhneigð og kynlíf. Myndin er einkum ætluð 13–15 ára nemendum. Hún er einnig til textuð.

Útgefandi: Menntamálastofnun

Höfundur: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Hvað: Fræðslumynd

Fáðu já!

Kynlíf er eitt það fallegasta og innilegasta sem hægt er að eiga með annarri manneskju. Það hefur hins vegar skort fræðsluefni fyrir unglinga og ungt fólk um þessa hlið kynlífsins og því hafa ýmsar ranghugmyndir fengið að standa óáreittar og hafa skaðleg áhrif. Fáðu já! er ætlað  að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum.

Útgefandi: Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum

Leikstjórn:  Páll Óskar Hjálmtýsson

Handrit: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir,  Páll Óskar Hjálmtýsson og Brynhildur Björnsdóttir

Hvað: Fræðslumynd

Myndin af mér – myndin og kennsluleiðbeiningar

Íslensk leikin stuttmynd um stafrænt kynferðisofbeldi. Myndin byggir á sönnum frásögnum af því þegar nektarmyndir sem sendar eru í trúnaði fara á flakk og fjallar um þau áhrif sem slíkt hefur á líf fórnarlambanna.

Netið getur verið farvegur fyrir falleg og innileg kynferðisleg samskipti en það er mikilvægt að í þeim samskiptum ríki traust og trúnaður og að myndir sem skipst er á við slík tækifæri séu meðhöndlaðar af virðingu.  Myndin af mér er leikin stuttmynd um stafrænt kynferðisofbeldi úr smiðju þeirra sem gerðu fræðslustuttmyndirnar Fáðu já og Stattu með þér. Hún er byggð á sönnum frásögnum úr íslenskum raunveruleika þegar nektarmyndir, sem eru sendar í trúnaði, fara á flakk og áhrifin sem slíkt hefur á líf þeirra sem fyrir því verða. Myndin af mér segir sögur nokkurra unglinga í framhaldsskóla sem öll hafa kynni af stafrænu kynferðisofbeldi með einum eða öðrum hætti.

Útgefandi: Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum

Leikstjórn:  Brynhildur Björnsdóttir

Handrit: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Hvað: Fræðslumynd og kennsluleiðbeiningar

Leiðin áfram – (8 myndir)

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur gefið út 9 fræðslumyndbönd sem ganga undir heitinu Leiðin áfram. Myndböndunum er skipt eftir aldri brotaþola, fyrir 14 ára og yngri og 15 ára og eldri. Þar er farið í gegnum ferlið innan réttarvörslukerfisins eftir að kynferðisbrot hefur átt sér stað. Fjallað er um eftirfarandi málefni.

14 ára og yngri þolendur kynferðisofbeldis.

  • Hvað gerist eftir rannsóknina á brotinu?
  • Viðtal í Barnahúsi fyrir 14 ára og yngri.
  • Leitaðu til lögreglu ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi.
  • Hvað gerist hjá dómstólum?

15–18 ára þolendur kynferðisofbeldis

  • Embætti ríkissaksóknara ákveður hvort ákært verður í máli.
  • Skoðun á Neyðarmóttöku.
  • Leitaðu til lögreglu og kærðu kynferðisafbrot.
  • Skýrslutaka í Barnahúsi.
  • Dómstólar.

Markmið Vitundarvakningarinnar með gerð myndanna er að veita upplýsingar sem auðvelda þolendum og aðstandendum þeirra að sækja sér aðstoð.

Útgefandi: Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum

Hvað: Fræðsluþættir

Mannasiðir

Íslensk mynd um menntaskólanema sem er ákærður fyrir að nauðga skólasystur sinni. Hann neitar sök en á sér ekki viðreisnar von innan veggja skólans þar sem stúlkan á sterkt stuðningsnet. En þegar stúlkan mætir í viðtal á sjónvarpsstöðinni þar sem mamma hans vinnur tekur sagan óvænta stefnu.   Mikilvægt er að ræða efni myndarinnar við nemendur að áhorfi loknu og skoða það sem gerðist í myndinni.

Leikstjóri og handritshöfundur er María Reyndal en myndin er byggð á útvarpsleikriti sem María skrifaði og leikstýrði fyrir RÚV árið 2017.

Útgefandi: RUV

Hvað: Fræðslumynd í tveimur þáttum.


Ofbeldi í samböndum – Sóley

Ofbeldi í samböndum, líka kallað heimilisofbeldi, er þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér. Til dæmis fjölskyldumeðlimur, núverandi eða fyrrverandi kærasti eða kærasta, vinir eða umönnunaraðili.

Dæmi um ofbeldi er að slá, klípa, hrinda, hóta, öskra, vanræksla, káf og að láta aðra gera eitthvað kynferðislegt sem þeir vilja ekki. Að horfa upp á aðra á heimilinu vera beitta ofbeldi er líka ofbeldi.

Útgefandi: Jafnréttisstofa

Hvað: Fræðslumynd

Stafrænt kynferðisofbeldi

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, skólastýra Jafnréttisskóla SFS, fjallar um foreldrabréf um nýja birtingamynd kynferðisofbeldis.

Útgefandi: Heimili og skóli og SAFT

Hvað: Fræðsluþáttur

Að drekka te – Að setja mörk

Stuttmynd á youtube sem fjallar um líkindi þess að drekka te og setja mörk og virða mörk í kynlífi.

Hvað: Myndband

Höfundarréttur: © 2015 Emmeline May og Blue Seat Studios